hinni nýju þrá hans. Hirðmey: Hér kemur Ruggiero til okkar, drottning. Nú munum við sjá hvað himnesk fegurð megnar með sætum gráti. Alcina: Nem staðar, grimmi maður! Hvert ertu að fara, miskunnarlausi og vanþakkláti maður, og skilja mig eftir sem fórnarlamb grátsins? Hindraðu að minnsta kosti asann við að fara rétt á meðan þessi gríðarlegi sársauki drepur sál mína. Sjáðu tár mín, hlustaðu á óp mín, hlustaðu á hinar réttlátu ásakanir mínar. Nem staðar, grimmi maður, eða þessi augu, sem þú sagðir sól og stjörnur rétt í þessu, munu breytast í fljót af þínum völdum. Speglaðu þig í þessu andliti, þar sem gleði og hlátur höfðu aðsetur, og þú munt sjá mistök þín og trúfestu mína og að umvafinn kvöl og pínu safnast allur tregi heimsins í mér. Ruggiero: Hafðu hemil á grát þínum, Alcina, og ef þú þarft endilega að gráta, grát þá svik þín og mistök mín. Alcina: Æ, ef þú hefur ekki samúð með aumleika mínum, megi þá mistök þín hreyfa við þér. Þú veist fullvel hversu óútmáanlegur blettur svik eru á göfugum riddara. Ruggiero, hjartað mitt, ég óttast of mikið um þig, of mikið um mig. Ef þú neitar mér um hjálp í slíkri hugarangist, vei, vei, þá sé ég að hver einasti vottur af miskunn er horfinn þér án tilverknaðar mín. Þar sem heiður þinn og síðustu orðin sem ég mæli fá því ekki áorkað að harka þín mildist, æ, mundu að minnsta kosti hversu ljúfra faðmlaga þú naust með mér í ástarfriði og megi hin ljúfa minning stöðva fót þinn. Önnur hirðmey: Grimmd tígursins, steinhjarta. Grátbænandi konu, elskandi konu, þeirri tryggustu og staðföstustu sem hefur nokkurn tímann sent frá sér andvörp og beiðnir, neitar þú um miskunn og frið. Alcina: Himnar – fyrst hann þegir, segið þið mér: hvor er meiri, þrjóskur vilji hans eða harmur minn